Hallgrímskirkja
Opnunarhátíð
Á opnunarhátíð landsmóts í Hallgrímskirkju er stefnt að notalegri stund í þessari glæsilegu kirkju á Skólavörðuholtinu. Mótið verður formlega sett og við upphefjum andann með því að hlýða á tal og tóna og ekki síst hið stórkostlega kirkjuorgel, það stærsta sinnar tegundar á Íslandi með 5275 pípur og þykir einstaklega hljómfagurt. Við sláum tóninn fyrir dagana framundan sem munu einkennast af gleði, áskorun og upplifun og einnig dýrmætum kynnum og samveru.
Boðið verður upp á rútuferðir frá Háskólabíói að Hallgrímskirkju á milli kl. 17-18 og kvöldmat kl. 19.00 í garði Listasafns Einars Jónssonar. Að því loknu eru konur á eigin vegum.
Um Hallgrímskirkju
Hallgrímskirkja er stærsta kirkja Íslands og rís hæst bygginga yfir höfuðborgina Reykjavík. Turninn er 73 metra hár og þar er hægt að njóta útsýnis yfir borgina, sundin blá og fjallahringinn umhverfis hana. Hallgrímskirkja er fjölsóttasti ferðamannastaður Íslands.
Alþingi Íslendinga hlutaðist til um byggingu kirkjunnar. Í hugmyndasamkeppni sem haldin var 1929 var áskilið að kirkjan skyldi rúma 1200 manns og hafa háan turn sem gæti nýst fyrir væntanlegt „víðvarp“ á Íslandi. Enn er turninn notaður af útvarps- og símafyritækjum til víðvörpunar.
Húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson (1887 – 1950), einn virtasti arkitekt landsins, hófst handa við að teikna kirkjuna árið 1937. Þjóðlegur stíll einkenndi byggingarlist hans eins og margra starfsbræðra hans á Norðurlöndum í þeim tíma. Aðalbygging Háskóla Íslands, Þjóðleikhúsið og Kristskirkja í Landakoti eru meðal hugarsmíða hans. Hann notaði íslenskar fyrirmyndir og íslenskt efni. Hallgrímskirkja, sem varð hans síðasta verk, minnir á stuðlaberg, íslensk fjöll og jökla.