Kvennakór Reykjavíkur
-
Kvennakór Reykjavíkur hóf starfsemi sína árið 1993 og fagnar því 30 ára starfsafmæli á árinu. Frá árinu 2010 hefur kórinn sungið undir stjórn Ágotu Joó. Ágota er frá Ungverjalandi og hefur kórinn notið þess að kynnast ungverskri söngmenningu undir hennar stjórn. Tónlistarval kórsins er sérlega fjölbreytt og krefjandi og leggur stjórnandi kórsins metnað sinn í að kynna kórkonum ólíka strauma í tónlist. Kórinn syngur á fjölda tungumála: frumbyggjamál frá Afríku, japanska, ungverska og finnska eru dæmi þar um. Auk tónleikahalds og æfinga leitast Kvennakór Reykjavíkur við að taka þátt í margvíslegu kórastarfi. Meðal annars náði kórinn glæsilegum árangri í alþjóðlegri kórakeppni á Spáni árið 2016 og haustið 2017 tók kórinn þátt í sjónvarpsþáttunum Kórar Íslands. Var það lærdómsríkt og skemmtilegt ævintýri. Þó verðlaunasætið hafi ekki fallið kórnum í hlut viljum við trúa því að með þátttöku Kvennakórs Reykjavíkur og fleiri frábærra kvennakóra í þessum þáttum hafi kvennakórar almennt hlotið löngu verðskuldaða athygli.
Sumarið 2019 gerði kórinn víðreist um Ungverjaland og söng í undurfallegum kirkjum og sýnagógum auk þess að sækja námskeið undir stjórn virtra ungverskra tónlistarmanna. Síðustu dögum ferðarinnar var eytt við hið einstaka Balatonvatn. Þar sameinuðust söngurinn og samveran undir stjörnubjörtum miðnæturhimni í miðju Balatonvatni þar sem sungið var á sundbolnum verkið Ejszaka; lag um nóttina í skóginum, þögnina, fuglana og stjörnurnar. Þetta eru töfrar söngsins.
Á tímum Covid æfði kórinn sleitulaust með aðstoð tækninnar þar sem kóræfingar, fundir og fjargleði fengu að njóta sín á Zoom. Þá nýttum við kórsystur tímann vel til þess að skipuleggja langþráð landsmót sem loksins er orðið að veruleika.
Kvennakór Reykjavíkur hlakkar til að njóta landsmóts með söngsystrum af öllu landinu.